Hugmyndin

Mía er 7 ára gömul stelpa, hún er ný búin að missa tönn. Mía er ótrúlega skemmtileg og elskar að hafa gaman. Hún er hinsvegar orðin veik og þarf að fara í aðgerð til þess að fá lyfjabrunn. Í bókinni er Mía að segja sína sögu af ferlinu og á sama tíma að hugreista þann aðila sem er á leið í sama ferli og hún er búin að vera í.

Í bókinni er einnig farið í gegnum hvernig æðaleggur er settur upp í lyfjabrunninn frá upphafi til enda ásamt því hversu gott það er fyrir Míu að hafa alltaf einhvern sem hún treystir hjá sér og passar uppá að henni líði vel með það sem er að gerast. Einnig hittir Mía fleiri krakka sem eru með lyfjabrunn.

Hugmyndin er á frumstigi en Mía er klár í slaginn og miðað við myndina af henni er hún búin að tækla allt það erfiða sem búið er að leggja fyrir hana.

Hugmyndin er því komin aðeins á veg og væri draumur að láta þessa hugmynd verða að veruleika. Bæklingur sem þessi hjálpar bæði heilbrigðisstarfsfólki að koma upplýsingum áleiðis ásamt því að róa foreldra og börn sem eru að upplifa jafnvel eitt erfiðasta tímabil líf síns. Lyfjabrunnur er ekki settur upp hjá barni nema séð sé fram á langvarandi lyfjameðferð eða langvarandi tímabil þar sem barnið þarf oft að láta setja upp æðaleggi. Því er mér það hugleikið eftir að hafa upplifað sjálf þessa raun með mínu barni að koma þessari hugmynd minni í framkvæmd með hjálp fagaðila á Barnaspítala Hringsins og Bergrúnu Írisi teiknara en hún á heiðurinn af Míu með mér.