
Vá hvað ég er stolt af Míuboxunum. Takk allir sem eru að taka þátt og takk þið sem eigið eftir að koma inn. Það eru alltaf einhverjir að bætast í hópinn og vá vá vá hvað ég er þakklát. Míuboxin virka þannig að ég vel ofan í hvert og eitt einasta box eftir því hver er að fá það. Sama hvort það eru foreldrar eða börn. Þannig verða boxin einstaklega persónuleg og enn dýrmætari.
Ég er komin með fullt af flottum fyrirtækjum sem ég get leitað til. Þó að þú sért hluti af samstarfsaðila þá ertu kannski ekki alltaf með í hverjum einasta mánuði. Sumir eru það en ekki allir. Fer bara algjörlega eftir því hvaða vörur passa ofan í hvert box. Fallega kanínan fer ofan í öll barnaboxin og er því alltaf með. Ég sendi á þau fyrirtæki sem ég held að gætu haft eitthvað fallegt í boxin og þau fá svo að ráða hvort þau taka þátt eða sitja hjá þennan mánuð sem ég hef samband. Það er því allt opið og ótrúlega gaman að sjá hve margir vilja taka þátt.
Míuboxin eru fyrir öll langveik og fötluð börn og foreldra þeirra. Það hefur komið upp sú spurning oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hvort Míuboxin séu bara fyrir börn með lyfjabrunn og foreldra þeirra. NEI er svarið því Mía ætlar að vera fyrir öll langveik og fötluð börn. Það tekur bara smá tíma að koma Míu þangað sem ég sé hana. Ég vil gera þetta vel og er ein í þessu. Þetta er einnig góðgerðarverkefni og því allt sem ég geri gert í sjálfboða vinnu.
ÚTHLUTANIR
Fyrsta barna Míuboxið fór til yndislegu Söru Natalíu þann 16. október 2020. Eftir þetta box ákvað ég að búa til foreldra Míubox líka sem er besta ákvörðun sem ég hef tekið lengi. Það rignir inn umsóknum þar sem fólk er að tilnefna foreldra sem þeim finnst eiga skilið að fá box.
Annað barna Míuboxið fór til Theodórs Mána þann 3. nóvember 2020. Það sem mér þykir vænt um hversu mikið af samstarfsaðilum ég fékk eftir fyrsta Míuboxið hennar Söru. Þetta fór fram úr mínum björtustu draumum. Theodór Máni og Sara Natalía þekkjast og þegar ég kom til Theodórs Mána með hans Míubox frétti ég að sara hefði skírt kanínuna sína Theodór. Ég stakk því uppá að hans verndarkanína fengið nafnið Sara. Ég held að það hafi orðið úr, hversu fallegt??
Þriðja Míuboxið var foreldrabox og var það Aníta Káradóttir sem fékk það afhent þann 11. nóvember 2020. Míuboxið hennar var svo fallegt og fór fyrsta foreldra Míuboxið á fullkominn stað. Aníta á langveika stúlku sem heitir Aldís Embla og standa þær mæðgur sig svo ofsalega vel. Svo stolt af þeim.
Núna er ég að vinna í að útbúa desember Míuboxin. Það er búið að láta þá sem tilnefndu vita en það er enn leyndó hverjir það eru sem fá úthlutað. Ég er byrjuð að hafa samband við fyrirtækin og vá þetta verður æði. Mig dreymir um að hafa smá jólatöfra yfir boxunum í desember en ég þarf bara að finna út hvað það er sem gerir þau smá jólaleg.
Umbúðir fyrir Míuboxin eru í vinnslu og hlakka ég til að segja ykkur meira frá því þegar það allt er komið betur í ljós. Eigið yndislega daga kæru Míu vinir.
- Þórunn Eva