
Ég hef verið smá óviss með að setja þetta inn þar sem það er ekkert staðfest í þessum efnum en ég skal láta þetta gerast. Ég sendi bók út til Noregs til lítillar hetju sem heitir Ronja Líf Ísfjörð. Hún er með lyfjabrunn og hefur þurft að ganga í gegnum heljarinnar verkefni allt sitt líf. Hún stendur sig svo vel en eins og foreldrar langveikra barna vita þá tekur ansi oft á að setja upp æðaleggi eða þegar þarf að stinga í lyfjabrunna, umbúðaskipti, sonduskipti og name it, þetta tekur allt saman á. Það er alveg sama hvað þarf að gera við krílin okkar það er alltaf jafn erfitt og virðist venjast seint og illa. Þannig að þegar vel gengur verður allt svo miklu auðveldara fyrir alla aðila. Barnið, foreldrana og síðast en ekki síst umönnunaraðilana. Þetta tekur á alla sem sinna barninu á einn eða annan hátt.
Ég átti skilaboð fyrir ekki löngu síðan á facebook og var það frá Ásu Birnu mömmu Ronju. Skilaboðin hittu mig beint í hjartastað því ég skildi hana svo vel sem foreldri. Ég skildi líka starfsfólkið svo vel verandi sjúkraliði. Þó ég sé nú ekki að fara að sýna ykkur allt samtalið okkar þá langar mig samt að sýna ykkur smá brot af því sem hún skrifaði mér:
„Ronja var að fá stungu í brunninn fyrir svæfingu sem hún þarf að fara í. Bókin hjálpaði okkur helling í dag. Enginn grátur. Alveg magnað, Ronja hefur alltaf öskrað úr sér lungun þegar þetta er gert þó hún viti að töfrakremið er komið á og allt. En svo sá hún kremið og emla plásturinn í bókinni og sá að Mía var hrædd en svo var allt í lagi hjá Míu og það heyrðist ekki orð í Ronju. Bara brosti og sagði Mía líka. Ronja nefndi sinn brunn Míu.“
Það sem kom á eftir var bónus hamingja :
„Hjúkrunarfræðingarnir vilja endilega fá bókina þýdda á norsku. Þær voru alveg hissa að það væri til bók á Íslandi en ekki í Noregi og voru agndofa yfir þessari flottu bók. Fannst hún svo flott að þær voru farnar að lesa uppúr henni á íslensku og reyna að skilja hana.“
Oslo universitetssykehus (Rikshospitalet) er mjög spenntur fyrir að fá bókina til sín á norsku. Sem er sturluð staðreynd og er ég að reyna að finna leið til þess að gera þetta á sem farsælastann máta. Ég vil gera þetta vel og ég vil að þetta sé faglega gert. Ég er ekki komin með neina niðurstöðu í málið, það er að segja hvernig ég ætla að framkvæma þetta og ef þið vitið um einhvern sem ég get ráðfært mig við þá væri það draumur í dós. Þetta skal takast. Þetta mun takast og ekkert annað í boði en að láta þetta takast.
Ég er svo stolt hvað þetta litla verkefni er búið að fá mikla og flotta umfjöllun og hvað bókin er að hjálpa mörgum. Skrítið að segja það en litla stóra verkefnið mitt hefur slegið í gegn og það ekki bara á Íslandi sem er algjörlega mögnuð tilfinning.
Þangað til næst.
