Barnaspítali Hringsins

Í dag 13. maí afhentum við Barnaspítala Hringsins 100 Míu bækur. Það er ótrúlega gaman að sjá hvað viðbrögðin eru góð og allir svo jákvæðir fyrir bókinni. Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna fékk einnig afhentar 100 bækur í dag. Afhentar bækur dagsins fóru því samanlagt í rétt tæpar 250 bækur í heildina. Það fóru einnig bækur á Bókasafn Hafnarfjarðar og heill hellingur í póst. Það er því við hæfi að ítreka það hér að það geta allir fengið bók sem vilja. Hafið endilega bara samband við mig og við látum það gerast. Skólabókasöfn, leikskólar, bæjar bókasöfn, heilsugæslur og fleiri hafa verið að óska eftir bókum og er það ótrúlega gaman. Því fleiri sem óska eftir bókum því betra. Einstaklingar einnig velkomnir að hafa samband.

Erik Valur yngri sonur okkar hjóna var í lyfjagjöf í dag og hitti hann uppáhalds vinkonu sína á leið inn. Bráðamóttaka Barnaspítalans fékk afhentar bækur fyrir páskana en þar sem það láðist að taka mynd skelltum við í eina núna. Við hoppuðum því upp á dagdeild í lyfjagjöf og afhentum flottu vinkonum okkar þar 100 bækur við þær 20 bækur sem Bráðamóttakan var búin að fá um daginn.

Bækurnar eru farnar að hjálpa á svo frábæran hátt og gaman að segja frá því að Sesselja Hreinsdóttir (sjúkraliði á bráðamóttöku barna og er hér á myndinni að ofan fyrir utan Barnaspítalann) sendi mér æðislega umsögn um daginn sem ég leyfi hér að fylgja með. Það er draumur einn að sjá bókina gera þessa flottu hluti og hlakka ég til að sýna ykkur enn fleiri umsagnir sem ég hef verið að sanka að mér.

Glaðar dagdeildar skvísur og Erik Valur við afhendingu bókanna í morgun. Á myndina vantar nú reyndar Jón Sverrir eldri son okkar en hann var upptekin á skyndihjálpa námskeiði í dag og því tók litli bróðir við keflinu og tæklaði afhendinguna með glæsibrag einn síns liðs.