Kvenfélag Grindavíkur styrkir Míu

Mánudaginn 9. mars fékk ég þann heiður að spjalla við nokkrar Grindvískar gyðjur. Það er alltaf erfitt að fara og tala um það sem skiptir mann hvað mestu máli í lífinu. Börnin manns. En á sama tíma svo gefandi.

Ástæðan fyrir því að ég fór og spjallaði aðeins við þær var að segja þeim af hverju ég ákvað að gera bókina um Míu. Af hverju það er mér svona hugleikið að þessi bók verði að veruleika.

Ég bjó mörg ár í Grindavík og þykir mér vænt um bæjarfélagið og fólkið í bænum. Ég á enn mikið af fólki þar og því þótti mér ótrúlega vænt um að fá boðið að koma til þeirra og segja þeim lítið brot af okkar sögu. Takk elsku Solla.

Þó ég hafi vitað hverjar margar þeirra væru sem sátu þarna voru held ég all flestar sem vissu ekki hversu mikið bras þetta ferðalag hefur verið fyrir okkur. Ef ég get með einhverju móti ráðlagt fólki sem þekkir til fjölskyldna með langveik börn þá er það mjög einfalt ráð. Spurðu viðkomandi “hvað get ég gert til að hjálpa?”

Það er ekki víst að það sé nokkuð sem þú getur gert akkurat á þessu mómenti sem þú spyrð. En það er aldrei að vita nema viðkomandi komi til þín seinna eftir einhverskonar aðstoð. Bara það að einhver spyrji þó maður þiggi ekki hjálpina er eitthvað sem er svo yndislega dýrmætt. Maður finnur að viðkomandi er þá með manni í þessu ferðalagi á einhvern óútskýranlegan hátt.

Ég er Sollu og öllum gyðjunum í kvenfélaginu einstaklega þakklát því þær styrktu verkefnið mitt um hana Míu um 100.000 kr. Hversu hrikalega vel gert hjá þeim?

Takk fyrir mig og takk fyrir að hlusta á mig.