Sneak peak af myndum úr bókinni.

Mía er aðeins að fæðast og vá hvað bókin verður falleg þegar hún fer að smella saman (svolítið langt í það ennþá). Ég fékk sendar tvær myndir af Míu í dag frá Bergrúnu Írisi og ég fékk gæsahúð. Ef þessar myndir koma manni ekki í gírinn til að halda áfram þá er fátt sem gerir það.

Ástæðan fyrir því að þessar tvær myndir eru tilbúnar er sú að sjúkraliðablaðið sóttist eftir því að birta lokaverkefnið mitt núna í haustblaðinu sem kemur út núna á næstu vikum. Heiðurinn er mikill og hlakka ég mikið til að sýna ykkur þegar það kemur út. En þangað til þá fáið þið að sjá þessar tvær gullfallegu myndir sem fæddust í vikunni og fylgja í blaðinu.

Þegar einstaklingur gengur í gegnum tímamót í lífi sínu er gott að eiga eitthvern til að spjalla við. Það þarf ekki að vera sálfræðingur frekar en fólk vill. Margir sem geta talað við foreldri og þá sérstaklega ung börn. Margir eiga vinkonu/vin til að tala við. Aðrir eiga frænku eða frænda. Sumir geta talað við lækninn sinn eða jafnvel skrifa niður það sem þeim liggur á hjarta. Mía á afa Óla til að tala við um allt sem hana langar til að tala um.

Börn opna sig oft frekar ef við erum hreinlega bara að dunda okkur með þeim. Finnum eitthvað að gera sem þeim finnst skemmtilegt. Mía og afi eiga einstakt samband og á þessu tiltekna augnabliki fann Mía sig knúna til að tala um lyfjabrunninn sinn við afa.

Mía og Afi Óli.

Hversu dásamlegt. Allar sögupersónurnar eiga sér baksögu. Afi Óli er ekki bara einhver afi Óli. Hann er okkar afi Óli. Afi Óli er afi mannsins míns. Hann lést sumarið 2018 og söknum við hans mikið. Bergrún Íris fékk mynd senda af afa Óla og er hann byggður á honum. Afi Óli var einstakur maður, þegar ég kom inní fjölskylduna tók hann mér opnum örmum og það var alveg sama hvað maður þurfti að spjalla, hann var alltaf til í spjall og að ráðleggja manni. Hann sagði við manninn minn þegar ég byrjaði í sjúkraliðanáminu að hann skyldi sko styðja sína konu í þessu námi sama hvernig hann færi nú að því. Hann var svo glaður þegar ég sagði honum að ég ætlaði i sjúkraliðanám.

Mía elskar að lesa og finna ró.

Þessi mynd kallar fram þá ró sem ég elska að sjá. Börn sem ganga í gegnum erfiða tíma í lífinu þurf að finna sér eitthvað sem hjálpar þeim að slaka á og líða vel, kúpla sig út úr amstri dagsins og fá að vera börn. Lestur hjálpar til við það. Það er mjög mikilvægt að börn fái þann stuðning sem þau þurfa til að viðhalda andlegu jafnvægi í gegnum erfið verkefni. Ég túlka þessa mynd sem slíka. Að finna ró í hjarta sínu hjálpar til við að finna ró í líkamanum. Að opna bók og lesa er eins og að opna fyrir risastórt ævintýri sem þú tekur þátt í.

Það sem ég hlakka til að halda áfram með bókina og sýna ykkur meira.